Leita í fréttum mbl.is

Fólkið á Mahé.

Mahé, sem við búum á, er stærsta eyjan.  Hún er svona eins og Hrísey á breyddina, en þrisvar sinnum lengri.  Eyjaskeggjar eru ótrúlega þægilegir og hlýlegir í umgengni.  Þó að við séum aðeins búin að vera hér í hálfan mánuð var okkur boðið í afmælið til ömmunnar (mömmu Lise), síðastliðin sunnudag þar sem öll ættin var samankomin.  Þeir eru flestir svolítið feimnir við að tala ensku en þeir byrja strax í skóla á að læra hana og frá átta ára aldri er kennt á ensku.  Fólkið í kringum okkur hér er ekki mikið skólagengið svo samskiptin á ensku fara oft fram í gegnum unglinganga sem margir tala hana sæmilega.  Þeir eru ekkert sérstaklega forvitnir um land okkar og spyrja fárra spurninga.  Menn eru meira svona að "hanga saman" tala lítið og brosa öðru hverju.  Krakkarnir í öllum skólum eru í skólabúningum, eins bankastarfsmenn og starfsmenn ýmissa fyrirtækja.  Flestir eru mjög snyrtilegir og undarlegt er að í þessari hitasvækju finnst varla svitalykt í troðfullum strætisvagni.   Konurnar eru flestar með hárið í hnút, með skartgripi en yfirleitt ekkert málaðar enda helst meikið illa á í hitanum.  Þær hafa ekkert fyrir því að fjarlægja líkamshár af t.d. fótunum enda sést það lítið því þær eru svo dökkar.  Litlu krakkarnir eru algjör krútt, stelpurnar með eyrnalokka og allar fléttaðar.  Unga fólkið er líka mjög fallegt en margar konurnar eru vel þéttar.  Bjarni segist aldrei hafa séð aðra eins rassa, langt upp á bak.  En hann er líka vanur svo góðu!!!  Fólkið er samt mjög blandað, af ljósu, indversku og mjög dökku, en flestir eru einhversstaðar mitt á milli.  Annað sem ég tók eftir; er að þeir nota hvorki barnavagna né kerrur, þeir eru með börnin á handleggjunum.  Halda bara á þeim pínulitlum í bænum.  Túrisminn er þægilega dempaður,  það er enginn að reyna að selja manni neitt og í búðunum er manni tekið eina og heima það nennir varla neinn að afgreiða mann, nema það sé að breytast eitthvað heima í kreppunni.  Svo er annað sem er líkt með okkur og þeim,  þeir fá sér í glas við hvert tækifæri og syngja og dansa.  Afmæli ömmunnar byrjaði rétt eftir hádegi og endaði um kvöldið með drykkju og dansi.  En allt mjög settlegt.  Við entumst til fimm, komin með höfuðverk af rólegri drykkju af hvítvíni, rauðvíni og freyðivíni og hárri tónlist.  En amman sat róleg í stofunni með reggye-tónlist á fullu í tíu tíma í hitasvækjunni.        

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær lýsing hjá þér Þórdís á þessu góða fólki og umhverfi - við getum mikið lært af þeim og má fyrst taka hana nægjusemi

G. Bjarni (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 18:53

2 identicon

Skemmtilegar mannlýsingar hjá þér Þórdís, síðan er öll að taka sig flotta mynd. Dóra biður að heilsa, skilaðu kveðju til ferðalanganna frá Íslandi Beggu og Gústa. Vonandi þau haft gott ferðalag þegar þau loksins komust frá Íslandinu góða. kvJóhann Úlfars

Jóhann Úlfars (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórdís Katla
Þórdís Katla
Höfundurinn er húsmóðir úr vesturbænum með stórar skoðanir á öllum hlutum, en ennþá stærra egó.

Tónlistarspilari

Francois Havelock - Helen zot de Ghislaine

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband