Leita í fréttum mbl.is

Hundgá um nótt.

Ég ætlaði aldrei að geta sofnað í gærkvöldi.  Morguninn eftir sagði Hlín mér að hún hefði átt í sömu erfiðleikum.  Það var óvenjulega ragt og mollulegt.  Svo þegar ég var að sofna byrjuðu hundarnir að gelta.  Hér er allt fullt af villihundum,  eða hundum sem einhver á en hugsar ekkert um.  Þeir halda sig alltaf á sömu slóðum, sumir eru á ströndinni og aðrir hanga fyrir utan hliðin í von um mat.  Þessir hundar eru skítugir og alveg óhirtir og augsýnilega dauðhræddir við að verða barðir.  Bjarni spurði vinkonu Hlínar, Shamilu hvort hún lemdi hundana og hún brosti bara sínu sætast og sagði "yes".  Villihundar eru víst hálfgert vandamál hér á eyjunum.  En í nótt ætluðu þeir aldrei að hætta að gelta, ég lá í rúminu skíthrædd, en Bjarni bara hraut.  Þó að það sé yndislegt að vera hérna er maður alls ekki öruggur, eiturlyfjaneysla er alvarlegt vandamál, og eins þjófnaður.  Við sem útlendingar með dýrar græjur gætum verið auðveld bráð.  Þó þjófnaðir séu ekki algengir er aldrei of varlega farið.    

Kreppa og vöruskortur.

Í gær fórum við í bæinn, eða til Victoriu, til að kaupa í matinn.  Það var líka rigning og ekki hægt að fara á ströndina.  Hlín langaði í brúnt brauð, sem aðeins fæst í höfuðstaðnum.  Ferðin með strætó tekur um tuttugu mínútur.  Upp hæð með hlykkjum og skrykkjum og niður hinum megin á eyjunni, með sömu sveigunum.  Búðin var í betra hverfinu, þar sem ráðuneytin eru og úrvalið var heldur fjölbreyttara, en aðeins tíu til tuttugu stykki af hverju og sumar hillurnar nánast tómar.  Allt brauð var búið nema rúsínubrauð, við létum okkur hafa það.  Ég keypti eina dós af kartöfluflögum (aðeins til ein sort), ólífuolíu (ekki dýrari týpuna), instant kaffi og smá oststykki (gat valið um tvær tegundir).  Fyrir þetta borgaði ég sem samsvarar 4000 ísl. kr.  Kennaralaun eru á milli 40 til 50 þús ísl. kr.  Þannig að þessar vörur eru ekki á borðum hjá þeim oft í viku.  En hér er engin kreppa og engin vöruskortur, þetta er veruleikinn hjá lítilli eyþjóð sem þarf að flytja inn mest allt af sínum nauðsynja-vörum.  Krakkarnir eru búttaðir, unglingarnir fitt og konurnar þybbnar, svo hver er að kvarta.  En ég kvartaði þegar við stigum út úr strætó á miðjum annatíma, þar sem við þurftum að standa alla leiðina.  Allir gluggar lokaðir því það rigndi svo mikið úti og inni eins og í gufubaði.  Það lak af Bjarna niður á konurnar sem sátu bókstaflega undir höndunum á honum.  En auðvitað vorkennum við ykkur öllum í kreppunni á Íslandi.  Við komum heim í hjálparstarf eftir mánuð. 

Seychelles eyjar og kynlífssniglar.

Seychells er eyjaklasi í miðju Indlandshafi.  Eyjarnar eru 115 og nokkrir tugir af kóralrifum.  Ekki er byggð á öllum eyjunum og sumar eru í einkaeign.  Á eyjunum samanlagt búa í kringum 90 þúsund, og þar af 60 þúsund á stærstu eyjunni sem er Mahé.  Höfuðborgin er Victoria og rétt fyrir utan hana er flugvöllurinn á landuppfyllingu.  Eyjan Mahé er öll skógi vaxinn, þar er líka hæsta fjallið, rétt um níu hundruð metrar.  Við erum sem sagt á Mahé, en ekki sömu megin og Victoria, sem er af svipaðri stærð og Akureyri og álíka mikill sveitafílingur.  Víkin hér heitir Beau Vallon og ströndin Mare Anglais eða Enska ströndin, en hún er stærsta ströndin á eyjunni.  Þessi strönd er mjög mikið frábrugðin ströndum við miðjarðarhafið.  Það eru ekki almenningssalerni, engar sturtur, sólbekkir, barir, sölubásar og guð sé lof engin hávær tónlist.  Tvö til þrjú lítil hótel, hvítur sandur og heitur sjór.  Nóg pláss, allt náttúrulegt og sveitalegt.  Sjórinn er aðeins kaldari núna eftir rigningarnar, svona eins og sundlaug.  Annars er allt ísniglasex bullandi rólegheitum 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég fór út í garð í gær  eftir mikla  rigninganótt og þar var fullt af risa-sniglum og sumir í mjög kyn-legum stellingum.  Þetta er það mest krassandi  síðan við komum.  Hlín er í sjokki. 


Heitt og sveitt.

Það hellihringdi í London svo við fórum ekkert niður í bæ, heldur ákváðum að reyna að bóka okkur inn snemma.  Vélin fór í loftið á réttum tíma, rétt eftir níu um kvöldið.  Risavél og þjónustan öll góð um borð.  Sokkar og augnleppar í boði.  Síðan var það kvöldmatur og svefntaflan og tíu tíma flugið var liðið. Það fyrsta sem mætti okkur var hitinn.  Þrjátíu stig, en virkar meira vegna rakans, og enginn vindur.  Robin beið fyrir utan og keyrði okkur í húsið.  Við fórum aðeins í sjóinn aðeins til að fá tilfinninguna, hann er hreinn unaður, þó að staðurinn sem víð fórum út hafi verið aðeins of líflegur fyrir minn smekk ( miklir þörungar ).  Við Sváfum eins og rotuð þó að regnið drundi á þakinu.  Því hér er  að byrja vetur eða regntímabil núna  Robin fór með okkur á bílnum til að versla í morgun.  Gjaldmiðillin  hér er Rupees sem er í kringum tíu íslenskar krónur.  (Miðað við normal ástand).  Við keyptum vatn og nauðsynjar, svona aðeins meira en helgarinnkaup.  Fyrir þetta borguðum við þúsund Rupees, sem okkur fannst nokkuð mikið miðað við að laun í lægri kantinum væri í kringum tvö til þrjú þúsund.  Enda þurfa þeir, eins og við að flytja megnið af nauðsynjavörum inn.  Gjaldeyrir er af skornum skammti og allir vilja skipta evrum, sem er hagstæðara en að skipta í banka.  Það hefur hringt hér síðan um hádegi, en hitinn er sá sami.  Mig langar að opna glugga og fá ferst loft inn, en það er ennþá heitara og sveittara úti. 

bloggrein1

  Við Hlín í hádegismat á veröndinni .

 

 

 

 

   


Seychelles-eyjar

Hvatinn að þessu bloggi er ferð okkar Bjarna (Bjarni Ómar Guðmundsson) til Seychell-eyja, Þar sem hann ætlar að taka þátt í verkefni ,sem sjálfboðaliði, sem Guðmundur nokkur Hólmsteinsson kom á fót. Meira um það seinna. Þessi síða á að þjóna því hlutverki, að þeir sem eru forvitnir um ferðalag okkar og þess sjálfboðastarfs sem unnið er af íslendingum á Seychell-eyjum, geti svalað forvitni sinni

Þetta byrjaði allt í vor hjá okkur, þegar Bjarni þurfti vegna vinnu sinnar að hafa samband við Guðmund.  Þeir höfðu unnið saman í Örtölfutækni hér á árum áður og höfðu haft samband í gegnum sameiginlegt áhugamál; siglingar.  En höfðu ekki heyrt í hvor öðrum mjög lengi. Guðmundur var þá á Seychell og voru þeir í tölfusambandi.  Okkur fannst verkefnið strax mjög spennandi. Þegar Hlín Ágústdóttir, (sonardóttir Ragnars, fósturpabba Bjarna) minntist á það í útskriftarveislu sinni að hana langaði að fara í hjálparstarf fór boltinn að rúlla.  Svo þegar Bjarni seldi hlut sinn í Ipneti fórum við fyrst að hugsa um að fara sjálf. Hlín fór til Seychell í ágúst og er þar núna (sjá tenglar).  Það starf sem Hlín fór til að vinna að og Bjarni mun gera líka, er að koma upp þjónustuborði fyrir kennara (helpdesk).

Það var seinni partinn í ágúst, þegar Hlín var farin að við tókum þá ákvörðun að fara. Kreppan var ekki komin og ferðakostnaðurinn virtist ekki það mikill þá.  Við keyptum flugmiða til London (þar sem við erum núna ), flugum út 4 okt. gistum eina nótt og tökum næturflug með Seychellair í kvöld.  Allan kostnað við ferðalagið og uppihald úti borgum við sjálf, en C&W símafyrirtækið styrkir verkefnið og sér okkur fyrir húsnæði.  Flugið tekur tíu tíma og við ættum að vera lent um kl. tíu í fyrramálið.  Robin Zarine mun taka á móti okkur þar sem Hlín er að kenna.    


« Fyrri síða

Höfundur

Þórdís Katla
Þórdís Katla
Höfundurinn er húsmóðir úr vesturbænum með stórar skoðanir á öllum hlutum, en ennþá stærra egó.

Tónlistarspilari

Francois Havelock - Helen zot de Ghislaine

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband