Leita í fréttum mbl.is

Draumheimar

dreamsEftir heimkomuna hef ég gert eins og Íslendingar hafa gert í gegnum aldirnar til þess að halda geðheilsu í skammdeginu og núna í kreppunni, þ.e.a.s. lúrt í rúminu og látið mig dreyma.  Í einu af þessu móki dreymdi mig draum sem mig langar að deila með ykkur.  Þannig að ég opnaði nýja bloggsíðu sem ég ætla að tileinka draumum.  Gaman væri að fá ábendingar um drauma inn á síðuna.  Nú eða aðrar ráðningar á draumunum.  Þeir sem vilja geta líka skrifað inn drauma sína og ég skal reyna að ráða þá.  En síðan er draumheimar.blogg.is

 


Ferðalok.

Þessar fimm vikur á Seychelles hafa liðið eins og draumur.  Við hefðum alveg viljað vera lengur, en það verður samt gott að koma heim.  Það sem hefur áunnist fyrir "Helpdeskið" er að formleg stofnun er á næsta leiti.  Bjarna fundaði með aðila frá Menntamálaráðuneytinu, þeir eru mjög ánægðir með framgang mála og telja sig geta nýtt sér hugmyndir okkar.   Samstarfssamningur verður væntanlega undirritaður innan fárra vikna.  Menntamálaráðuneytið mun fyrst í stað fjármagna "Helpdeskið", en markmiðið er að innlendir styrktaraðilar sjái alfarið um fjármögnunina.  Innfæddir aðilar, lögfræði- og endurskoðandaskrifstofa  hafa bæst í hóp styrjaraðila.  Búið er að safna tölvum og prenturum á Íslandi og í Englandi.  Nú þarf að finna styrktaraðila til að kosta flutninginn til Seychells.  Starfið heldur sem sagt áfram að fullum krafti.  Bjarni er langt frá því að vera búin að vinna fyrir þetta verkefni og heyrist mér á honum að ekki muni líða langur tími þar til við syndum aftur í yndislega sjónum á Seychelles.Lavi-Lontan-Seychelles-Seychellen

 

 

Mig langar að leyfa ykkur að heyra lag frá Mahé sem innfæddir erumjög hrifnir af.  Þetta lag er af nýútgefnum diski Lavi lontan og mjög vinsæll.  Minnir mig á Seychells.

 


There is no such thing as a free meal.

Ótrúlegt en satt, að Bjarni sem "broker for Moorings" fékk lánaða skútu (catamaru eða tvíbyrðing) í einn dag.  Við urðum auðvitað arfaglöð,  Stór ný skúta með fjórum káetum, eldhúsi snorkgræum og léttabáti.  Sú sem lánaði bátinn sá ekki einu sinni pungaprofsskýrteinið hjá Bjarna, hvað þá að við þyrftum að skrifa undir einhverja pappíra.  Við sigldum út, sól skein í heiði og rósavín í kæli.  Endurlifðum Króatíufílingin (við sigldum öll saman í Króatíu fyrir fimm árum).   Fyrir utan Viktoriu eru fjórar eyjar og sker sem er þjóðgarður þó að þar séu nokkur minniháttar fimmstjörnu hótel.  Við ætluðum að sigla í kringum stærstu eyjuna í góðum byr, en eitthvað vorum við komin úr æfingu því maginn fór á hreyfingu.  Þá bundum við bátinn við bauju og tókum upp snorkgræjurnar.  Við Bjarni fengum bakteríuna í Egiptalandi í fyrra en þau hin höfðu aldrei upplifað þetta áður.  Þeim fannst þetta æðislegt eins og okkur.  Við sáum allavega lita fiska og allskonar botngróður.  Eftir smá næringu um borð og pólutíska umræðu við þjóðgarðsverðina sem komu til okkar héldum við áfram.  Vindurinn blés þannig í seglin að við gátum ekki skriðið eftir eyjunni og inn sundið þar sem kóralrifin eru.  Við kóralrifin er mesta fjölbreytnina að sjá.  Við sikksökkuðum  fyrir utan um stund og þegar við nálguðumst eyjarnar aftur sáum við brjóta á rifi.  Engar merkingar neinestaðar.  Við hægðum ferðina og fylgdumst með dýptarmælinum þegar allt í einu KRASSS.  Við rákumst á stein sem dólaði undir vatnsborðinu.  Það varð vægast sagt panik um borð.  Og þegar Bjarni sagði að stýrið virkaði ekki og okkur rak í átt að rifinu urðum við náföl undir allri sólbrúnkunni.  Við settur ankerið niður og reyndum að kalla á hjálp, en enginn svaraði.  Svo við tókum aftur upp ankerið og Bjarni reyndi með gírunum og okkur kallandi að stýra fram hjá steinunum og í átt til hafnar.  Við hringdum á skrifstofuna og þeir sögðu að hjálp væri á leiðinni.  Við dóluðum svona lengi og færðumst í átt að bátahöfninni með miklum tiffæringum, aldrei bólaði á hjálpinni.  Við komumst inn í bátahöfnina en þorðum ekki að leggja að.  Loks eftir þó nokkra bið kom hjálpin.  Það hafði komið gat á bátinn og þurfti að taka hann upp.  Stýrið hafði gengið upp og skekst við höggið og ef við hefðum slökkt á vélinni hefði hann sokkið.  Við vorum í djúpum skít.  En erum við ekki með allar okkar tryggingar, ferðatryggingar og platínukort tryggð?  Heldur betur ekki, smáaletrið þú veist...  Ekki var heldur hægt að nota tryggingarnar á bátnum því við höfðum ekki leigt hann.  Þannig að við sátum uppi með tjónið sem við urðum að borga samstundis því á morgun fljúgum við heim.  Þannig fór með sjóferð þá.

Ferðin til Praslin og La Digue

Við vorum vöknuð fyrir sex og komin til Victoriu fyrir sjö, en þaðan er klukkutíma sigling til Praslin.  Bjarni hafði verið í sambandi við einhvern sem vinnur hjá ferjunni og hann hjálpaði okkur með miðana og stýrði okkur inn á fyrsta farrými.  Þar sátum við í vel loftkældu, flottum morgunmat og köldum klútum.  Praslin er rúmlega helmingi minni en Mahé en að mörgu leiti svipuð.   Við byrjuðum á að taka leigubíl að hótelinu koma okkur fyrir og taka bíl aftur á bryggjuna til að taka aðra ferju til La Digue.  Sú ferð tók um 20 mín.  La Digue er enn minni en Praslin, en þar eru svo til engin bílaumferð. Allir eru á hjólum, jafnt heimamenn sem ferðamenn nema þeir sem taka uxakerrurnar.   Á þessum eyjum sér maður mikið fleiri ferðamenn en annarsstaðar.   Við leigðum okkur hjól og hjóluðum um eyjuna.  Þar er þjóðgarður og  í honum eru risaskjalbökur í girðingu.  Þær voru æðislegar, fornar og ferlegar.  Við urðum vitni að misheppnuðu mökunarferli, með hljóðum,  milli stórrar karl-böku og unglinga-böku, hún "hljóp" hann af sér.  Svo hjóluðum við á ströndina, fallega hvíta strönd með svörtum klettum.  Við skriðum í skugga klettana og fengum okkur kríu.  Hjóluðum svo til baka í ferjuna og aftur til Praslin.  Hótelið okkar þar var allt byggt í A-bústöðum á stólpum hátt uppi í hlíðinni..  Ótrúlega svalir og þægilegir og útsýnið stórfenglegt.  Morguninn eftir var líka tekinn snemma.  Ekki hægt að sofa fyrir brakinu í pálmablöðunum í golunni og garginu í krákunum.  Við tókum bílaleigubíl, fjögurra manna jeppling, að hruni kominn.  Maður er sko farin að slá af kröfunum.   Keyrðum að öðrum þjóðgarði sem er skógur með pálmum og trjám sem eru hvergi annarstaðar í heiminum, eins og Coco de mer.  Við féllum alveg í stafi, þvílíkt sem þetta var stórfenglegt og stærðin á gróðrinumvar yfirgengileg.  Þaðan lá leiðin á golfvöllinn Lemuria.  Við fengum að fara inn að skoða, svo fór Bjarni að tala við yfirmennina og áður en við vissum vorum við komin í tvo golfbíla.  Völlurinn er talinn einn af þeim flottari og það var virkilega gaman að skoða hann.  Begga var með tárin í augunum og fiðring í sveiflunni.  Síðan var keyrt eins og skrjóðurinn komst til Anse Lazio sem er með fallegri ströndum sem ég hef séð.  Hvítur fíngerður sandur, eins og hveiti undir iljunum.  Við rétt náðum að leika okkur svolítið í öldunum áður en tími var kominn til að halda heim á leið.  Þó að það færi vel um okkur á fyrsta farrými vorum við Hlín frekar sjóveikar.  Bjarni og Ágúst voru glaðir yfir einum köldum. 


Bílferð um Mahé.

Við fimm (við Bjarni, Ágúst, Begga og Hlín) ákváðum að nota einn rigningardaginn í að keyra um eyjuna.  Hringurinn tekur um fjóra tíma og er keyrt með fram strandlengjunni.  Undirlendi er lítið því það liggur fjallhryggur eftir eyjunni miðri, fjöllin eru ekki há en skógi vaxin.  Ströndin er víðast klettótt en inn á milli eru fallegar hvítar strendur.  Ströndin okkar Beu Vallon er lengsta ströndina og með þeim fallegri.  Víða sjást miklir granítklettar og stórir granítsteinar eins og þeir hafi sprottið upp úr jörðinni.  Þeir eru víst ævafornir og sumir tengja þá kenningu um "Lemuriu"; horfið meginland.  Gróðurinn á eyjunni er alveg með eindæmum fjölbreyttur, allskonar ávextir vaxa villtir en mest ber á banana- og papyatrjám.  Breadfruittré eru líka algeng með þessum stóru kringlóttu ávöxtum.  Svo sjást risavefir eftir Palm-kóngulærnar.  Þær eru lófastórar en halda sig mest í trjánum sem betur fer.  En þær gera það þó að verkum að löngunin til að fara í skoðunarferð inn í óræktina og tína ávextina er engin.  Við sáum nokkur glæsileg hótel, en þau alflottustu eru úr alfaraleið með þyrlupalli.  En allt fellt smekklega inn í landslagið.  Meðal túrismi er mjög lítill, lítið um minjagripaverslanir  og aðra ferðamannaafþreyingu.  Enginn alþjóðlegur skyndibitastaður eða sjoppa við þjóðveginn sem er mest steyptur sveitavegur , svo við borðuðum nestið í bílnum.  Þessi vöntun á alþjóðavæðingu er að mínu viti eitt af því sem gerir þessar eyjur svo óvenjulegar.  Þar til fyrir þremur árum var allt ríkisrekið,  allur skemmtanaiðnaður,  hótel, innflutningur ofl.  Þeir hafa í gegnum kreppur og harðræði, ( fengu hjálp frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum 1980), náð að bíta á jaxlinn og halda sínu striki.  Ekki selt strendurnar undir hótelkeðjur eða iðnað, ekki selt heldur eflt þjóðgarðana sína.  Þó eru þeir í sömu stöðu í dag og víð erum í.  Þurfa að sækja um og bíða eftirgjaldeyri, vöruskortur er í verslunum og 34% hækkun á matvælum á undanförnum tveimur árum.   En að selja landið sitt, það er ekki inn í myndinni.  Við teljum okkur velmenntaða og framsýna þjóð sem höfum margt að miðla öðrum, en virðumst ekki treysta okkur til að mæta neinu harðræði án þess að taka styðstu mögulegu leiðina. 

Festival kreol.

Einu sinni á ári er haldin Festival kreol og stendur hún í viku frá og með 25. okt.  Hátíðarhöldin eru stærst í Victoriu og fara þau fram á íþróttavelli nálægt miðbænum.  Þar var sett upp svið sem var eins og flugvél í laginu, auglýsing frá Air Seychelles.  Hljómsveitir spiluðu sega og dansmeyjar dönsuðu hálfgerðan magadans.  Takturinn er of hraður fyrir dansspor svo maður hreifir bara mjaðmirnar, eða lyftir upp höndunum og hristir sig.  Á öðrum stað nálægt miðbænum var settur upp markaður með mat og handunnum vörum.  Maturinn er aðallega dæmigerður kreola-matur, sem er blanda af frönskum og indverskum réttum.  Mikið er um allskonar stöppur sem eru borðaðar með hrísgrjónum, chutney og chilli.  Fiskréttirnir eru líka vinsælir og er fiskurinn grillaður heill með beinum og roði og blöndu af engifer, hvítlauk og chilli. Lise var með bás í Vichtoriu um helgina og eldaði bæði fyrir hádegismat og kvöldmat.  En hún verður með bása á mismunandi stöðum alla vikuna, Hún er búin að vera í marga mánuði að undirbúa hátíðina með því að safna í frystikistuna.  Það er mikið borðað og drukkið, en klukkan tíu um kvöldið var allt búið og þá taka dikótekin við fyrir þá sem það vilja.  Matarmenningin hér er partur af umhverfinu og væri erfitt að endurskapa annarsstaðar.  Eins og ég hef áður minnst á nota þeir mango mikið í ýmsa rétti.  Það má segja að mango sé aðalávöxturinn á eyjunum, enda fljótsprottin, við horfum  á þá vaxa á trénu í garðinum.  Óþroskað mango nota þeir í staðin fyrir sítrónu eða raspa það niður þrýsta öllum safanum úr og steikja það upp úr olíu með lauk, salti og pipar.  Þetta nota þeir svo sem meðlæti í staðin fyrir salat, eða það sem þeir kalla chutney.  Þetta gera þeir líka við papaya ávöxtinn sem vex líka hér út um allt  Fullþroskuðu ávextina nota þeir sem eftirrétti eða í ávaxtasallöt.  Kartöflur nota þeir ekki mikið, enda vaxa þær ekki hér.  Sætar kartöflur nota þeir hins vegar með rót sem þeir kalla cocojam og er soðið saman upp úr cocosmjólk og vanillu og verður að sætum eftirrétti.  Soðnar rætur, casava og cocojam, eru notaðar, sem meðlæti.  Kökur sér maður sjaldan, en hægt er að fá  cocos- og banana formkökur.  Brauðin eru öll úr hvítu hveiti og úrvalið ekki mikið. Fiskurinn er vinsæll ekkert mjög dýr og fjölbreyttur.  Mikið er um saltaðan og þurrkaðan fisk sem þeir sjóða svo í stöppu.  Meira að segja er tekið innan úr  hákarlshausunum hann soðinn og brytjaður niður í mauk.  Cocoshnetur eru líka mikið notaðar og vaxa hér nokkrar tegundir.  Þeir fínraspa cocosinn hella vatni yfir og "vinda" með höndunum til að fá cocosmjólkina.  Flestir réttirnir eru undirbúnir frá grunni og því fer mikill tími hér í eldamennskuna, en útkoman er góð og fer vel í maga.  


Fólkið á Mahé.

Mahé, sem við búum á, er stærsta eyjan.  Hún er svona eins og Hrísey á breyddina, en þrisvar sinnum lengri.  Eyjaskeggjar eru ótrúlega þægilegir og hlýlegir í umgengni.  Þó að við séum aðeins búin að vera hér í hálfan mánuð var okkur boðið í afmælið til ömmunnar (mömmu Lise), síðastliðin sunnudag þar sem öll ættin var samankomin.  Þeir eru flestir svolítið feimnir við að tala ensku en þeir byrja strax í skóla á að læra hana og frá átta ára aldri er kennt á ensku.  Fólkið í kringum okkur hér er ekki mikið skólagengið svo samskiptin á ensku fara oft fram í gegnum unglinganga sem margir tala hana sæmilega.  Þeir eru ekkert sérstaklega forvitnir um land okkar og spyrja fárra spurninga.  Menn eru meira svona að "hanga saman" tala lítið og brosa öðru hverju.  Krakkarnir í öllum skólum eru í skólabúningum, eins bankastarfsmenn og starfsmenn ýmissa fyrirtækja.  Flestir eru mjög snyrtilegir og undarlegt er að í þessari hitasvækju finnst varla svitalykt í troðfullum strætisvagni.   Konurnar eru flestar með hárið í hnút, með skartgripi en yfirleitt ekkert málaðar enda helst meikið illa á í hitanum.  Þær hafa ekkert fyrir því að fjarlægja líkamshár af t.d. fótunum enda sést það lítið því þær eru svo dökkar.  Litlu krakkarnir eru algjör krútt, stelpurnar með eyrnalokka og allar fléttaðar.  Unga fólkið er líka mjög fallegt en margar konurnar eru vel þéttar.  Bjarni segist aldrei hafa séð aðra eins rassa, langt upp á bak.  En hann er líka vanur svo góðu!!!  Fólkið er samt mjög blandað, af ljósu, indversku og mjög dökku, en flestir eru einhversstaðar mitt á milli.  Annað sem ég tók eftir; er að þeir nota hvorki barnavagna né kerrur, þeir eru með börnin á handleggjunum.  Halda bara á þeim pínulitlum í bænum.  Túrisminn er þægilega dempaður,  það er enginn að reyna að selja manni neitt og í búðunum er manni tekið eina og heima það nennir varla neinn að afgreiða mann, nema það sé að breytast eitthvað heima í kreppunni.  Svo er annað sem er líkt með okkur og þeim,  þeir fá sér í glas við hvert tækifæri og syngja og dansa.  Afmæli ömmunnar byrjaði rétt eftir hádegi og endaði um kvöldið með drykkju og dansi.  En allt mjög settlegt.  Við entumst til fimm, komin með höfuðverk af rólegri drykkju af hvítvíni, rauðvíni og freyðivíni og hárri tónlist.  En amman sat róleg í stofunni með reggye-tónlist á fullu í tíu tíma í hitasvækjunni.        

Bazar Labrin.

Á miðvikudagskvöldum er slegið upp sölubásum fyrir ofan ströndina og þar er seldur heimilisiðnaður; matur, landi, skartgripir ofl.  Lise á sinn fasta bás og selur mat sem hún eldar heima hjá sér.  Hún býr hér rétt hjá með manni sínum og dætrum þeirra, Scaamilu og Siamíu, þær eru góðar vinkonur Hlínar.   Lise leyfði mér að koma og hjálpa sér við að elda matinn fyrir Bazarinn og kynnast í leiðinni kreolamatargerð.  Ég fór upp úr hádegi en þá var hún byrjuð á undirbúningnum.  Hér þarf að gera allt frá grunni.  Hún undirbjó tvær tegundir af fisk og svínakjötssneiðar til að grilla um kvöldið auk fjögurra pottrétta.  (Meira um það seinna).  Hún kenndi mér það meðal annars, að nota megi óþroskað mango sem sítrónu, því hér eru sítrónur sjaldséðar.  Við prófuðum þetta í ginið og sprite-ið (ekkert tonik) áður en við fórum á Bazarinn að borða og það virkaði fínt.  Á Bazarinn koma  aðallega innfæddir til þess að borða kvöldmat, þeir fara annars sjaldan út að borða, sýna sig og sjá aðra.  Þarna er líka seldur landi, svo það getur verið mikið stuð.  Það er kveiktur eldur og svo er spilað, sungið og trommurnar slegnar.  Það eru aðallega karlmennirnir sem syngja og dansa og konurnar fá sér meira að borða, þær eru svolítið búttaðar hérna.  Réttirnir eru ódýrir, svo það er gaman að ganga á milli og smakka.  Svo er setið úti smá stund áður en haldið er heim.  

 

Verkefnið " Helpdesk "

Á mánudaginn var fundur hjá Bjarna og Robin hér í húsinu.  Þeir fóru meðal annars yfir kostnaðaráætlun fyrir Verkefnið og leiðir til þess að mæta þeim kostnaði.  Hvaða hugbúnað skyldi velja, með þarfir Helpdesksins í huga og ver næstu skref skuli vera.   Áður en við komum út var Bjarni búinn að vera í sambandi við Logmein, hugbúnaðarfyrirtæki sem lýsti sig reiðubúið til að styrkja Verkefnið í formi hugbúnaðar.  Fyrsta skrefið virðist að stofna fyrirtæki sem gæti séð um reksturinn og fá styrktaraðila til þess að sjá um þann kostnað, sem af því leiðir.  Í farveginum er samningur við Menntamálaráðuneytið hér á Seychelles sem hefur lofað fjárhagslegum stuðningi við Verkefnið.  Bjarni og Hlín fóru svo á fund í dag með Cable & Wireless.  Þeir styrkja þetta verkefni meðal annars með því að sjá þeim fyrir húsnæði, er koma hingað í sjálfboðavinnu.  C&W er eitt stærsta símafyrirtækið á eyjunum.  Þeir hafa stutt ríkið í að netvæða alla skóla Seychelles frítt.

 


Partý-helgi

Það var ákveðið þegar við komum að grilla laumufarþegann. lambalærið með Robin, konu hans Margreti og vinahópi á föstudagskvöldið.  Partýið var svo haldið heima hjá bróðir Robins, William og konu hans Mary.  Auk þeirra voru nokkrir vinir og fullt af börnum.  Heimili þeirra  er betur búið en hjá meðal Jóni, stór flatskjár, stór upplýstur garður og útigrill sem kom að góðum notum við að grilla lambið.  Auk lambsins voru þau með grillaðan sverðfisk, kjúklinga,  hrísgrjón, graskerssalat ofl.  Í forrétt fengum við reyktan lax og eðalvínin flutu.  Gestrisni eins og best var á kosið.  Við sátum og skröfuðum í tunglljósi með leðurblökur fljúgandi yfir höfðum okkar langt fram eftir nóttu.  Það náðist upp ótrúlega góð stemming og allir í góðum fíling þegar haldið var heimleiðis.  Robin keyrði auðvitað, hér eru engar blöðrur til að blása í.  Heima reif Bjarni upp símann og hringdi í Dóminós á Íslandi og pantaði pizzu.  Þegar gaurinn sem svaraði spurði "sækja eða senda", trylltist Bjarni úr hlátri og sagði honum að senda hana en hafa hana extra heita.  Gaurinn spurði hvort hann vildi extra pepperóní en Bjarni sagðist vilja hana mjög heita því það þurfi að senda hana svo langt.  Svo hló Bjarni og hló.  Daginn eftir vorum við svolítið drusluleg, en góður sundsprettur og smá lúr á ströndinni lagar allt.  Við vorum kominn í náttfötin og hálfa leið upp í rúm þegar Robin hringdi til að bjóða okkur út áð dansa.  Hlín hefur ekkert farið á diskotek síðan hún kom, svo við gátum ekki sagt nei.  Í partýgallann og svo vorum við á leiðinni á Tequila boom.  Klíkan hittist fyrir utan staðinn og William bauð í glas, hann var með barinn í skottinu, glös klaka og allt.  Inni var þvílíkur hiti og tónlistinn ærandi en við dönsuðum "af okkur rassgatið" eins og sagt er.  Aðal tónlistinn hér er kölluð Sega, nokkurs konar samba með mjög hröðum takti.  Við vorum eins og hundar af sundi en þá fór Mary að kenna okkur að dansa  Sega og það fór alveg með hárgreiðsluna, eða er "wet look" inn?  Við vorum komin heim um fjögur, Robin keyrði okkur, en það var ekkert farasnið á hinum.  Svo vorum við mætt með rósavínsflösku til Lise klukkan hálf tólf daginn eftir.  Hún bauð okkur í hádegismat; grillaðan fisk svínasteik í ofni og grillaðan kjúkling.  Í eftirrétt fengum við sætar kartöflur í kókós og ís.  Allir eru mjög vingjarnlegir og leggja metnað sinn í að vera gestrisnir og við njótum þess.  Það er mjög gaman að fá tækifæri til þess að kynnast fólkinu hér og lífsstíl þess.   Helgin endaði á Því að Bjarni fékk Pizzuna á Pizzustað hér nálægt,  þó við þyrftum að bíða klukkutíma eftir henni.  Síðan tókum við Hlín sundsprett í kvöldhúminu meðan Bjarni var að bíða eftir reikningnum.     

Næsta síða »

Höfundur

Þórdís Katla
Þórdís Katla
Höfundurinn er húsmóðir úr vesturbænum með stórar skoðanir á öllum hlutum, en ennþá stærra egó.

Tónlistarspilari

Francois Havelock - Helen zot de Ghislaine

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband